154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hagaðilar eru alla jafna óánægðir, alltaf. Ég bara man ekki eftir því frá því ég byrjaði á þingi að það hafi verið með öðrum hætti, bara aldrei. Þeir eru ekki endilega sammála um hvað þeir eru óánægðir með. Þeir eru yfirleitt óánægðir, hver á sínum forsendum. Það er auðvitað ekki nýtt stef eða eitthvað nýtt fyrir mér að heyra það.

Það er rétt, við erum að greiða gríðarlega mikið í vexti og það er markmiðið að ná niður skuldahallanum þannig að við höldum áfram á þeirri vegferð sem við höfum verið á. Varðandi það að ná niður verðbólgu og öðru slíku og þátt ríkisfjármálanna í því þá hef ég alltaf talað þannig að ríkisfjármálin eigi að styðja við peningamálastefnu Seðlabankans. Það er bara þannig og það er hlutverk ríkisfjármálanna að gera það ásamt aðilum vinnumarkaðarins, það er auðvitað líka. Þetta gerist aldrei bara einhendis einhvers staðar, hjá Seðlabankanum eða ekki. Það er að mínu mati ekki þannig þó að í orði kveðnu og lögum sé það þannig að Seðlabankinn hafi þetta hlutverk. Það er svoleiðis. Sannarlega er það svoleiðis og ekkert rangt í því en ég tel að þetta, eins og við erum að gera hér — við höfum í rauninni haldið aðeins að okkur höndum varðandi fjárfestingar. Það er partur af því að reyna að hjálpa til í því að styðja við peningamálastefnuna ásamt auðvitað því aðhaldi sem hér er lagt til. Það er með það eins og annað, sumum finnst það allt of mikið á meðan öðrum finnst það bara of lítið og það er ekkert óeðlilegt við það. Það er pólitík að hafa skoðanir á því og með hvaða hætti í það er farið. Ef ég væri ein í ríkisstjórn myndi ég örugglega gera það öðruvísi. Það liggur líka alveg fyrir. En þetta er samt sem áður að mínu mati frumvarp sem styður við og hjálpar til varðandi verðbólguna.